Staða mín öðruvísi nú en fyrir EM

Hörður Björgvin á æfingunni á Laugardalsvellinum.
Hörður Björgvin á æfingunni á Laugardalsvellinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var létt yfir landsliðsmanninum Herði Björgvini Magnússyni þegar mbl.is ræddi við glókollinn fyrir fámenna æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.

Hörður Björgvin er einn af fimm úr HM-hópnum sem er mættur til landsins til undirbúnings fyrir HM en fyrsti leikur Íslendinga verður gegn Argentínumönnum í Moskvu þann 16. júní.

„Ég er alveg búinn að ná mér af þeim meiðslum sem hafa verið að angra mig síðustu vikurnar og ég er spenntur og fullur tilhlökkunar. Ég er bara sáttur við mitt tímabil með Bristol City. Auðvitað hefði ég viljað spila meira en ég tók þátt í sigurleik á móti Manchester United í deildabikarnum og var með í báðum leikjunum á móti Manchester City í undanúrslitum deildabikarsins sem City þurfti að hafa mikið fyrir að vinna. Það var mikil reynsla,“ sagði Hörður Björgvin við mbl.is.

Hörður Björgvin var í landsliðshópnum sem tók þátt í Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum. Hann kom ekkert við sögu í fimm leikjum Íslendinga á mótinu en nú er líklegt að hann verði í annarri stöðu þegar flautað verður til leiks á HM.

„Ég öðlaðist mikla reynslu á EM þó svo ég hafi ekkert spilað. Ég var hluti af hópnum og í því hlutverki að klappa félögunum á bakið og standa með þeim í einu og öllu. Ég er stoltur yfir því að hafa verið valinn í HM-hópinn. Staða mín í landsliðinu núna er öðruvísi heldur en fyrir EM. Ég spilaði flesta leikina í undankeppninni fyrir HM þar sem við stóðum okkur frábærlega og náðum að enda í fyrsta sætinu og vonandi fæ ég tækifæri til að spila á mínu fyrsta stórmóti,“ sagði Hörður Björgvin, sem hefur skorað tvö mörk í 15 leikjum með landsliðinu en hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma gegn Króötum á Laugardalsvellinum í júní á síðasta ári.

„Eftir frábæra frammistöðu á EM og gott gengi í undankeppninni fyrir HM þá vitum við vel að liðin sem mætum í Rússlandi munu taka okkur mjög alvarlega. Riðillinn sem við erum í er erfiður og það mátti alveg búast við því þegar þú ert kominn á þetta svið. En við ætlum svo sannarlega að standa okkur vel á HM og gera allt sem við getum til að komast upp úr riðlinum,“ sagði Hörður Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert