Mark Kjartans sem rýtingur í bakið

Kjartan Henry í leik með Horsens.
Kjartan Henry í leik með Horsens. Ljósmynd/Twitter

Enn eru að berast fregnir í kjölfar ótrúlegrar viðureignar Horsens og Brønd­by í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á föstudaginn var en danskir fjölmiðlar tala um dramatískasta kvöldið í sögu deildarinnar.

Brønd­by var 2:0 yfir á 89. mínútu og með pálman í hendi sér þar sem sigur hefði haldið liðinu í bílstjórasætinu um danska meistaratitilinn. Kjartan Henry Finnbogason sá þó til þess að leikmenn og stuðningsmenn félagsins frá Brøndbyvester átti eitt sitt versta kvöld í sögunni.

Kjartan minnkaði muninn á 90. mínútu úr vítaspyrnu og, þegar tíu sekúndur voru komnar fram yfir uppbótartíma, jafnaði hann metin með þeim afleiðingum að Midtjylland getur nú tryggt sér titilinn með sigri í lokaumferðinni.

Besam Halimi er einn þeirra leikmanna Brønd­by sem á erfitt með að sætta sig við jafnteflið sem gæti kostað liðið svo mikið. „Þetta er versti dagur ferilsins, ég hef aldrei upplifað mig jafn tóman og akkúrat núna.“

Miðjumaðurinn Christian Nørgaard tók í sama streng: „Að vera hársbreidd frá því að verða meistari og fá svo á sig mark á loka sekúndunum er eins og rýtingur í bakið, mér líður ömurlega.“

Kjartan Henry gæti þó einn breyst úr skúrk í hetju í augum Brønd­by-manna en Horsens mætir einmitt toppliði Midtjylland í lokaumferðinni á morgun. Brønd­by á heimaleik gegn AaB og þarf að treysta á að Kjartan og félagar taki stig af Midtjylland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert