Besti framherji deildarinnar

Andri Rúnar Bjarnason fagnar marki með Helsingborg.
Andri Rúnar Bjarnason fagnar marki með Helsingborg. Ljósmynd/Helsingborg

Andri Rúnar Bjarnason er besti framherji sænsku B-deildarinnar í knattspyrnu, samkvæmt Göran Bolin, knattspyrnusérfræðingi Aftonbladet, sem fjallar um stöðuna hjá liði hans Helsingborg í dag.

Helsingborg fékk Andra Rúnar í sínar raðir í vetur en hann sló í gegn með Grindavík á síðasta ári þegar hann skoraði 19 mörk í 22 leikjum Pepsi-deildar karla og jafnaði markamet úrvalsdeildarinnar.

Andri hefur skorað 4 mörk í fyrstu sjö leikjum Helsingborg, sem er í fjórða sæti með 14 stig og á leik til góða á þrjú efstu liðin sem eru Örgryte með 19 stig, Eskilstuna og Falkenberg með 17 stig. Andri er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar sem stendur, en hann er einn þeirra tólf leikmanna sem eru til taks fyrir íslenska landsliðshópinn sem fer til Rússlands á HM.

„Hann er besti framherjinn í deildinni og með eiginleika sem enginn annar hefur. Það er engin spurning að hann er sá besti og stærsta von Helsingborg, ætli félagið sér að ná fyrri styrkleika á ný," skrifar Bolin.

Helsingborg varð sænskur meistari í sjöunda sinn árið 2011 og vann þá jafnframt bikarinn í fimmta sinn. Síðan hefur leiðin legið niður á við, liðið féll 2016 og reynir nú í annað sinn að endurheimta úrvalsdeildarsætið.

mbl.is