Midtjylland danskur meistari

Leikmenn Midtjylland eru danskir meistarar.
Leikmenn Midtjylland eru danskir meistarar. AFP

Midtjylland tryggði sér danska meistaratitilinn í knattspyrnu á heimavelli sínum í Herning á Jótlandi í dag er liðið vann Kjartan Henry Finnbogason og félaga í Horsens, 1:0.

Fyrir umferðina í dag var Midtjylland með tveggja stiga forskot á Brøndby sem hafði talsvert betri markatölu og því dugði ekkert annað en sigur fyrir Midtjylland til þess að tryggja titilinn.

Hjörtur Hermannsson og félagar í Brøndby gerðu aftur á móti á endanum aðeins jafntefli við AaB frá Álaborg en gula liðið frá útjaðri Kaupmannahafnar glutraði titlinum úr höndum sér með jafntefli við Horsens í síðustu umferð. 

Hjörtur var ónotaður varamaður gegn AaB og Kjartan Henry Finnbogason fór af velli á 65. mínútu gegn Midtjylland í lokaumferðinni í dag.

Mikil sorg var hjá Brøndby eftir jafnteflið í síðustu umferð og svo virðist vera sem liðið hafi ekki náð að jafna sig en 13 ár eru síðan liðið varð síðast meistari, tímabilið 2004-2005. Brøndby fær því silfurverðlaun deildarinnar annað árið í röð en liðið var á toppnum áður en úrslitakeppnin um meistaratitilinn hófst. Það er þó huggun harmi gegn að liðið varð bikarmeistari og á þeim vettvangi tók Hjörtur Hermannsson iðulega þátt.

Midtjylland varð síðast meistari 2014-15 og vann titilinn í annað skiptið í sögunni í dag.

Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í Nordsjælland gerðu markalaust jafntefli við FC København og tryggðu sér þar með þriðja sæti deildarinnar sem verður að teljast afar góður árangur. Rúnar stóð sem fyrr í marki Nordsjælland.

Fyrr í dag tryggðu Hannes Þór Halldórsson og félagar í Randers sér svo áframhaldandi veru í deild þeirra bestu í Danmörku eftir 2:1 og samanlagðan 4:2 sigur á Lyngby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert