Riddari í valdatafli stórvelda

Sara Björk með bikarinn á lofti eftir að Wolfsburg varð ...
Sara Björk með bikarinn á lofti eftir að Wolfsburg varð þýskur bikarmeistari um helgina. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir stígur inn á stærsta svið sem í boði er fyrir félagslið þegar hún leikur úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á fimmtudaginn kl. 16.

Óhætt er að tala um uppgjör tveggja stórvelda í þessum úrslitaleik, á milli Wolfsburg og Lyon, sem fram fer í Kiev í Úkraínu. Frá og með árinu 2010 hefur það aðeins einu sinni gerst að hvorugt liðið sé þátttakandi í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Og þrátt fyrir að í liðunum sé að finna rjómann af bestu knattspyrnukonum heims þá er íslenski landsliðsfyrirliðinn ekkert peð í þessu valdatafli. Sara hefur skorað sex mörk í keppninni til þessa, þrátt fyrir hlutverk sitt sem afturliggjandi miðjumaður, og flokkast líklega sem að minnsta kosti riddari eða biskup.

Ef ekkert óvænt kemur upp á mun Sara verða fyrst Íslendinga til að spila úrslitaleik Meistaradeildar í knattspyrnu. Engin íslensk knattspyrnukona hefur áður komist í úrslitaleikinn og Eiður Smári Guðjohnsen sat á bekknum í úrslitaleiknum árið 2009 þegar hann varð Evrópumeistari með Barcelona.

Mætast þriðja árið í röð

Þetta verður aftur á móti í þriðja sinn sem Wolfsburg og Lyon mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Lyon getur sett met með því að vinna titilinn í fimmta sinn frá því að keppninni var komið á laggirnar um aldamót. Liðið hefur unnið keppnina síðustu tvö ár, í bæði skiptin eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum, og hefur auk þess meðal annars orðið franskur meistari 12 ár í röð. Wolfsburg, sem hefur nú unnið tvöfalt í Þýskalandi tvö ár í röð, varð Evrópumeistari 2013 og 2014.

Norska landsliðskonan Caroline Graham-Hansen, danska landsliðskonan Pernille Harder og þýska ...
Norska landsliðskonan Caroline Graham-Hansen, danska landsliðskonan Pernille Harder og þýska landsliðskonan Lena Goessling eru meðal liðsfélaga Söru hjá Wolfsburg. AFP

Liðin mættust fyrst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2013 þar sem Wolfsburg vann 1:0-sigur. Fyrir tveimur árum vann Lyon í vítaspyrnukeppni eftir að Ada Hegerberg hafði komið Lyon yfir í venjulegum leiktíma en Alexandra Popp jafnað fyrir Wolfsburg. Þessar stórstjörnur verða væntanlega báðar á ferðinni á fimmtudag, þrátt fyrir að Popp hafi misst af bikarúrslitaleik með Wolfsburg um helgina vegna meiðsla. Þær Sara æfðu með liðinu í Þýskalandi í dag fyrir ferðalagið til Kænugarðs.

Popp hefur komið að tíu mörkum Wolfsburg í keppninni í vetur. Þessi 27 ára sóknarmaður hefur unnið keppnina þrisvar sinnum, fyrst með Duisburg árið 2009, og varð Ólympíumeistari með Þýskalandi árið 2016. Verði hvorki hún né Sara á skotskónum þarf Wolfsburg ekki að örvænta því skærasta stjarna liðsins er hin danska Pernille Harder, sem leiddi Danmörku í úrslitaleik EM í sumar og varð sænskur meistari með Linköping 2016 áður en hún fylgdi á eftir Söru frá Svíþjóð til Wolfsburg.

Lyon og Wolfsburg mættust einnig í Meistaradeildinni í fyrra en það var í 8-liða úrslitunum. Lyon vann þá 2:0 á útivelli í fyrri leiknum en Wolfsburg 1:0 á útivelli í seinni leiknum og féll úr leik. Sara lék að vanda báða þessa leiki.

Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar sigrinum á Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar sigrinum á Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

Ensk lið fórnarlömbin í undanúrslitum

Wolfsburg átti ekki í neinum vandræðum á leið sinni í úrslitaleikinn. Liðið byrjaði á að slá Atlético Madrid út í 32-liða úrslitum, samtals 15:2, og vann því næst Sigrúnu Ellu Einarsdóttur og stöllur í Fiorentina samtals 7:3. Sara skoraði þrjú mörk í einvíginu við ítalska liðið. Í 8-liða úrslitum vann Wolfsburg svo Slavia Prag, sem Sandra María Jessen lék þá með, samtals 6:1. Sara skoraði svo mikilvægt fyrsta mark Wolfsburg í undanúrslitaeinvíginu við Chelsea sem Wolfsburg vann samtals 5:1.

Lyon átti í öllu meiri erfiðleikum í sinni undanúrslitarimmu við Manchester City en vann að lokum 1:0 samtals. Áður hafði liðið slegið Barcelona út, 3:1 samtals, og rúllað yfir Kazygurt frá Kasakstan og Medyk Konin frá Póllandi, 16:0 og 14:0.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is