Stærsta ógnin fékk upp í kok af norska sambandinu

Ada Hegerberg leikur á varnarmenn PSG í frönsku 1. deildinni.
Ada Hegerberg leikur á varnarmenn PSG í frönsku 1. deildinni. AFP

Óhætt er að segja að Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Wolfsburg standi frammi fyrir mikilli áskorun gegn Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á fimmtudaginn.

Lyon hefur orðið Evrópumeistari síðustu tvö ár, getur orðið fyrsta liðið til að vinna keppnina þrjú ár í röð og fyrsta liðið til að vinna keppnina fimm sinnum alls. Það er engin tilviljun. Allt er lagt í sölurnar til að liðið sé í fremstu röð en það hefur orðið franskur meistari 12 ár í röð og er með valinn leikmann í hverju rúmi, hvort sem horft er á byrjunarliðið eða varamannabekkinn.

Sara þekkir andstæðinga sína vel, bæði úr leikjum í Meistaradeildinni með Wolfsburg og Rosengård en einnig með íslenska landsliðinu. Þar má meðal annars nefna franska og afar hávaxna landsliðsmiðvörðinn Wendie Renard og landa hennar á miðjunni; Camille Abily og Íslandsóvininn Amandine Henry sem fiskaði víti með óheiðarlegum hætti gegn Íslandi á EM í Hollandi í fyrra.

Hið ógnarsterka landslið Frakklands á marga fulltrúa í liði Lyon en í liðinu er einnig til að mynda kantmaðurinn eldfljóti Shanice van de Sanden úr Evrópumeistaraliði Hollands. Þar er líka enska landsliðskonan Lucia Bronze, sem skoraði eina markið þegar Lyon sló út Manchester City í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, japanska landsliðskonan Saki Kumagai og hin þýska Dzsenifer Marozsán sem Ísland gæti þurft að eiga við í undankeppni HM í haust.

Hegerberg með 44 mörk í deild og Meistaradeild í vetur

Skærasta stjarna Lyon, og sjálfsagt heimsfótboltans nema hin brasilíska Marta nái enn að skína skærar, er aftur á móti markamaskínan Ada Hegerberg frá Noregi. Hegerberg er aðeins 22 ára gömul en hefur skorað á annað hundrað marka fyrir Lyon síðan hún kom til félagsins árið 2014. Hún er langmarkahæst í Meistaradeildinni á leiktíðinni með 14 mörk.

Ada Hegerberg hefur raðað inn mörkum í búningi Lyon.
Ada Hegerberg hefur raðað inn mörkum í búningi Lyon. AFP

Hegerberg vakti mikla athygli eftir EM síðasta sumar þegar hún tilkynnti að hún ætlaði að taka sér hlé frá norska landsliðinu. Hún kvaðst hafa fengið sig fullsadda af því umhverfi sem norska knattspyrnusambandið skapaði kvennalandsliði sínu og sagði fjölmargt spila þar inn í, án þess að fara nákvæmlega út í þau atriði. Vildi hún einbeita sér að því að æfa og spila með Lyon, og það hefur hún líka gert. Hegerberg stendur enn utan norska landsliðsins en hefur skorað 30 mörk í 19 deildarleikjum í Frakklandi í vetur, auk markanna 14 í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert