Ari Freyr klúðraði í vítaspyrnukeppni

Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason. mbl.is/Golli

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Lokeren í Belgíu, tók þátt í æsispennandi viðureign gegn Zulte-Waregem í umspili um Evrópusæti á næsta tímabili. Lokeren tapaði í vítaspyrnukeppni.

Lokeren var manni fleiri frá 37. mínútu þegar leikmaður Zulte-Waregem fékk að líta rauða spjaldið. Ari og félagar brutu loks ísinn á 89. mínútu og virtust vera að tryggja sér sigur, en á þriðju mínútu uppbótartíma jafnaði Waregem og því þurfti að framlengja.

Lokeren komst yfir á sjöttu mínútu framlengingar en á 114. mínútu jafnaði Waregem á ný og þurfti þá að grípa til vítaspyrnukeppni. Ari Freyr, sem spilaði allan leikinn, tók fyrstu spyrnu Lokeren en brást bogalistin. Að lokum fór það svo að Lokeren klúðraði tveimur spyrnum gegn einni hjá andstæðingnum og því er Lokeren úr leik.

Zulte-Waregem mun hins vegar mæta Gent í úrslitaleik umspilsins um Evrópusæti á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert