Enn eitt hneykslið fyrir FIFA

Kevin Prince Boateng er ein stærsta stjarna Gana í knattspyrnu. …
Kevin Prince Boateng er ein stærsta stjarna Gana í knattspyrnu. Skandall skekur knattspyrnusambandið þar í landi. AFP

Karlalandslið Gana í knattspyrnu er væntanlegt hingað til lands í júní og leikur þá vináttulandsleik gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Um er að ræða síðasta vináttulandsleik Íslands áður en liðið heldur til Rússlands til að verja heiður Íslands í heimsmeistarakeppninni.

Ósennilegt er að forseti knattspyrnusambands Gana, Kwesi Nyantakyi, muni fylgja sínum mönnum til Íslands. Í gærkvöldi bárust af því fréttir að forseti landsins hefði gefið út handtökuskipun á hendur Nyantakyi fyrir svik. Grunur leikur á að Nyantakyi hafi notað nafn forseta Gana, Nana Akufo-Addo, án leyfis og í ágóðaskyni fyrir sjálfan sig.

Ríkissjónvarpið í Gana greindi frá málinu í gær og þar staðfesti starfsmannastjóri stjórnarráðsins í Gana, Abu Jinapor, fréttina. Sagði hann forseta knattspyrnusambandsins hafa verið til rannsóknar og hann væri grunaður um að hafa boðið konu úr viðskiptalífinu aðgang að forseta landsins gegn greiðslu. Áður hafði rannsóknarblaðamaðurinn Anas Aremeyaw Anas haldið því fram að myndskeið af slíkum samskiptum væri til.

Málið er stærra en svo að það snúi einungis að Gana, því Kwesi Nyantakyi er stjórnarmaður í Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, auk þess að vera varaforseti afríska knattspyrnusambandsins. Nyantakyi er stofnandi knattspyrnuliðsins WA All Stars í Gana, en einn af helstu fjárfestum þess er kvikmyndaleikarinn kunni Jackie Chan.

Samkvæmt fjölmiðlum í Gana er Nyantakyi ekki staddur í Gana heldur í Marokkó en mun vera væntanlegur heim í dag til að gefa sig fram við yfirvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert