„Hugsa ótrúlega vel um líkamann“

Pernille Harder og Sara Björk Gunnarsdóttir nýkomnar til Kiev í …
Pernille Harder og Sara Björk Gunnarsdóttir nýkomnar til Kiev í gærkvöld eftir ferðalag frá Wolfsburg. Ljósmynd/@Vfl_Wolfsburg

„Ég hugsa ótrúlega vel um líkamann minn og það er ein ástæða þess að ég get spilað alla þessa leiki,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir sem verður sjálfsagt hvíldinni fegin að loknum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á morgun eftir afar stífa dagskrá á leiktíðinni.

Sara og liðsfélagar hennar í Wolfsburg mæta Lyon í úrslitaleiknum hér í Kiev kl. 16 á morgun að íslenskum tíma. Sara verður á miðjunni hjá Wolfsburg eins og í allan vetur, en liðið hefur þegar orðið Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari og því nóg verið að gera hjá Söru. Hún missir hins vegar nær aldrei af leik, hvorki vegna meiðsla né leikbanns, og með íslenska landsliðinu hefur hún misst af aðeins einum mótsleik síðan hún kom fyrst inn í landsliðið rétt tæplega 17 ára gömul, fyrir rúmum áratug!

„Eftir að ég lenti í þessum miklu meiðslum og sleit meðal annars krossband 15 ára þá hef ég alltaf verið rosalega meðvituð um mitt líkamlega ástand, og hversu mikilvægt það er að hugsa um sig,“ segir Sara í spjalli við mbl.is í Kiev, en hún meiddist illa í skólaferðalagi í 10. bekk sumarið 2005 og lék ekki fótbolta í tvö ár.

„Það er svo mikilvægt að borða rétt og gera allar litlu, leiðinlegu æfingarnar sem skila því að maður nær að halda þessum standard. Ég held að þannig séð sé ég líka fædd með ákveðna líkamlegu getu að geta ávallt unnið í þessari ákefð. Pabbi minn var líka svona, gat hlaupið endalaust og verið í góðu standi. En ég mæti líka alltaf hálftíma-klukkutíma fyrir æfingar með liðinu til að gera sjálf fyrirbyggjandi æfingar, og ver tíma eftir æfingar í styrktaræfingar. Ég hugsa ótrúlega vel um líkamann minn og það er ein ástæða þess að ég get spilað alla þessa leiki. Maður sér alveg leikmenn sem hugsa ekki alveg eins vel um sig, en missa þá af leikjum við og við út af einhverjum tognunum. Ég finn alveg að ég er að halda líkamanum mjög góðum. Þetta er vinnan mín og ég mun gera hana 100 prósent,“ segir Sara.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert