„Hún er náttúrulega 1,87!“

Sara Björk er frábær skallamaður eins og hún hefur oft …
Sara Björk er frábær skallamaður eins og hún hefur oft sýnt með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Það eru ekki margir leikmenn sem unnið geta Söru Björk Gunnarsdóttur í skallaeinvígi en íslenski landsliðsfyrirliðinn viðurkennir að miðvörður Lyon, franska landsliðskonan Wendie Renard, sé ein þeirra.

Sara og Renard öttu meðal annars kappi á EM í Hollandi síðasta sumar og mætast á nýjan leik á morgun hér í Kiev þegar úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á milli Wolfsburg og Lyon. Aðspurð kveðst Sara myndu síður en svo móðgast við að vera talin næstbesti skallamaðurinn á Valeri Lobanovski-vellinum á morgun:

„Nei, alls ekki. Hún er náttúrulega 1,87,“ sagði Sara hlæjandi, og er ekki að ýkja. „Ef ég myndi vinna einn skallabolta á móti henni þá myndi ég telja það ansi gott. Ég veit ekki hversu mikið hún þarf að hoppa. Hún er einn sterkasti varnarmaður og besti skallamaður sem ég veit um,“ sagði Sara í spjalli við mbl.is í Kiev.

Wendie Renard ræðir við franska fjölmiðla eftir æfingu með Lyon …
Wendie Renard ræðir við franska fjölmiðla eftir æfingu með Lyon í gær. AFP

Lyon er rétt eins og Wolfsburg með lið stútfullt af leikmönnum úr hæsta gæðaflokki en stærsta stjarna liðsins er líklega hin norska Ada Hegerberg, sem skorað hefur 14 mörk í Meistaradeildinni í vetur. Á henni þurfa Sara og stöllur að hafa góðar gætur:

„Hún er frábær leikmaður, með mikið markanef, frábær skallamaður og rosalega líkamlega sterk en líka með góða tækni. Hún er bara alhliða mjög góður leikmaður,“ sagði Sara.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert