Náðum markmiðum og kom því á óvart

Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrir leik á Asíumótinu.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrir leik á Asíumótinu. Ljósmynd/@ChinaWFT

„Ég sé ekki eftir mínútu úr þessu stórkostlega ævintýri í Kína,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson knattspyrnuþjálfari í samtali við mbl.is fyrir stundu en í morgun var tilkynnt að honum hefði verið sagt upp störfum sem landsliðsþjálfara kvenna þar í landi.

Hann var ráðinn til þriggja ára í nóvember og með honum aðstoðarþjálfararnir Halldór Björnsson og Dean Martin, en öllu þjálfarateyminu var sagt upp og kínverskur þjálfari U19 ára landsliðs karla hjá Kínverjum var ráðinn í staðinn.

Við vissum þegar við tókum við starfinu að við myndum sennilega ekki fá mikla þolinmæði. Sagan og menningin eru þannig, miklar kröfur á að ná árangri strax. En við náðum útgefnum markmiðum um bronsverðlaun í Asíukeppninni og að koma Kína í lokakeppni HM. Að því leyti kom þetta á óvart," sagði Sigurður Ragnar en kínverska liðið varð fyrst allra til að tryggja sér sæti í lokakeppni HM í Frakklandi 2019 með árangri sínum á Asíumótinu í Jórdaníu fyrr í vor.

Kínverska landsliðið fagnar bronsi og HM-sæti í lok Asíumótsins í …
Kínverska landsliðið fagnar bronsi og HM-sæti í lok Asíumótsins í síðasta mánuði. Sigurður er annar frá hægri. Ljósmynd/@ChinaWFT

Liðið borið saman við gullaldarliðið

Að auki var mikil pressa strax frá fjölmiðlum strax frá byrjun og liðið er alltaf borið saman við gullaldarliðið þeirra sem var í fremstu röð fyrir 20 árum. Frá þeim tíma hefur leiðin legið niður á við jafnt og þétt hjá kínverska landsliðinu og það er að mínu mati ennþá töluvert á eftir sterkustu þjóðunum á svæðinu, Japan, Ástralíu og Norður-Kóreu, en við vorum að nálgast þær jafnt og þétt. Við hefðum þurft meiri tíma til að ná fram markmiðum okkar," sagði Sigurður Ragnar, sem gekk í morgun frá starfslokasamningi og er því laus allra mála.

Kínverska landsliðið er í dag í 17. sæti á heimslista FIFA og hefur verið á þeim slóðum frá 2011. Liðið var hinsvegar í 5. sæti þegar listinn kom fyrst út árið 2003 og fékk silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu árið 1999. Þá urðu kínversku konurnar síðast Asíumeistarar árið 2006, þegar liðið vann mótið í áttunda skipti.

Sigurður Ragnar sagði að framtíðin væri óráðin en allt galopið. „Nú er ekkert annað að  gera en að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum, hvar sem þau kunna að bjóðast," sagði Sigurður Ragnar en Kína var hans þriðja land sem starfsvettvangur í þjálfun.

Hann þjálfaði kvennalandslið Íslands frá 2007 til 2013, síðan karlalið ÍBV árið 2014, var aðstoðarþjálfari karlaliðs Lilleström í Noregi og tók við kínverska kvennaliðinu Jiangsu Suning í ársbyrjun 2017 en það varð kínverskur bikarmeistari undir hans stjórn. Í nóvember hætti hann þar til að taka við landsliði Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert