Hleypur úr sér lungun og tæklar þær í döðlur

„Auðvitað er ég hennar maður í þessu öllu, en ég reyni að vera sanngjarn og mér finnst hún hafa verið besti leikmaður Wolfsburg á tímabilinu,“ segir Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari um Söru Björk Gunnarsdóttur en hann er mættur til Kiev vegna úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu.

Úrslitaleikurinn hefst kl. 16 að íslenskum tíma, eða kl. 19 að staðartíma. Freyr og Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ, verða á leiknum en þau nutu sólarinnar á stuðningsmannasvæðinu í Kiev í dag þegar Mbl.is hitti á þau.

Beðist er velvirðingar á hljóðgæðum í meðfylgjandi myndskeiði.

„Ég er hérna í fyrsta lagi til að styðja við Söru og vera á staðnum þegar hún verður vonandi Evrópumeistari. Það er tækifæri í kvöld og ég vildi alls ekki missa af því. Svo er náttúrulega fullt af landsliðsmönnum Þýskalands að spila þennan leik svo það nýtist mér á marga vegu að vera hérna í kvöld,“ segir Freyr, en Ísland og Þýskaland berjast um sæti í lokakeppni HM á næsta ári og mætast á Laugardalsvelli í byrjun september.

Hún hefur siglt heim mikilvægustu sigrunum

Þjálfari og liðsfélagar Söru hafa ekki dregið úr mikilvægi hennar í liði Wolfsburg og Freyr, sem fylgst hefur vel með leikjum liðsins, segir hana einfaldlega hafa skarað fram úr í vetur:

„Hlutverk Söru hefur í rauninni ekki breyst mikið. Hún byrjaði fyrir tveimur árum að spila sama hlutverk og hún gerir hjá okkur í landsliðinu, sem djúpur miðjumaður sem tengir á milli varnar og miðju. Hún hefur vaxið ótrúlega vel og ég hef eiginlega ekki lýsingarorð til að hrósa henni nægilega mikið fyrir það hvernig hún kom til baka eftir Evrópumótið. Evrópumótið síðasta sumar reyndist henni mjög erfitt, bæði út frá úrslitum og andlega, og hún vann ótrúlega vel úr sínum málum. Það sem ég hef dáðst mest af er að í öllum stóru leikjunum sem ég hef séð í vetur, þessum „sex stiga“ leikjum, þá stígur Sara alltaf upp þegar það koma erfiðir kaflar. Hún er að mínu mati búin að sigla heim mikilvægustu sigrum liðsins,“ segir Freyr.

Sara elskar sólina en spurning með norsku ljóskurnar

Sara er fyrsta íslenska knattspyrnukonan sem kemst með liði sínu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Ég myndi halda að þetta hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir íslenskan fótbolta og stelpur í íþróttum. Allt sem Sara hefur gert, hvernig hún hefur unnið úr sínum málum og er komin í risastórt hlutverk hjá einu besta liði í heimi, liði sem myndi vinna flestöll landslið í heiminum líka, er risastór áfangi. Ef að þær landa þrennunni, og Sara er í lykilhlutverki, þá rætist eitthvað sem hana hefur dreymt um alla ævi og ég vona innilega að hún nái því, fyrst og síðast fyrir sjálfa sig,“ segir Freyr, sem var sammála blaðamanni um hve gott væri að vera í Kiev:

„Það er geggjuð stemning hérna og ótrúlega mikið af fólki. Vonandi tínist eitthvað af því á kvennaleikinn, þó ég viti að flestir séu hérna vegna leiksins á laugardaginn. Veðrið gæti alveg sett strik í reikninginn því það er ekki skuggi af stúkunum ef ég sá völlinn rétt. En Sara elskar sólina og þetta hefur engin áhrif á hana. Hún mun hlaupa úr sér lungun og tækla þær í döðlur, þetta hefur engin áhrif á hana, en þetta hefur kannski frekar áhrif á ljóskurnar frá Noregi,“ segir Freyr laufléttur en það verður að koma í ljós hvað norsku markamaskínunni Ödu Hegerberg finnst um þau orð.

Úrslitaleikurinn hefst kl. 16. Sindri Sverrisson er fulltrúi mbl.is á leiknum og fylgist með gangi mála í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert