Pínulítið svekkt út í sjálfa mig

Sara Björk liggur eftir á vellinum í Kænugarði í kvöld.
Sara Björk liggur eftir á vellinum í Kænugarði í kvöld. AFP

„Ég er ógeðslega vonsvikin og þetta er bara mjög erfitt núna. Tilfinningaríkt. Ég á erfitt með að koma frá mér orðum,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir við mbl.is á leið af Valeri Lobanovski leikvanginum í Kænugarði í kvöld.

„Maður er búinn að fella nokkur tár en það er kannski skiljanlegt,“ sagði landsliðsfyrirliðinn sem sat lengi inni í búningsklefa eftir leik enda búin að horfa á eftir Evrópumeistaratitlinum og meiðast illa í hásin. Sara segist voðalega lítið geta sagt um alvarleika meiðslanna en hásin í hægri fæti trosnaði, án þess þó að slitna.

„Ég var búin að vera mjög tæp fyrir þennan leik og ég er pínulítið svekkt út í sjálfa mig með að hafa ýtt mér á þennan stað. En þetta er bara leikur sem allir vilja spila. Þetta er búið að vera langt og strangt tímabil og ég hef fundið fyrir hásinunum núna síðustu vikur, en reynt að halda mér góðri og sjúkrateymið og læknirinn hafa gert allt sem þeir gátu til að halda mér gangandi. Svo var þetta bara undir mér komið hvort ég vildi spila eða ekki. Kannski var það heimskulegt, en maður er íþróttamaður og svona leiki vill maður spila. Við verðum bara að sjá til hvernig staðan er núna og vonandi er staðan ekki eins slæm og er haldið,“ sagði Sara, og sagðist ekki vita hvort hún yrði vikur eða mánuði frá keppni vegna meiðslanna.

Hásinin er ekki slitin

„Ég þarf að fara í myndatöku og skoða þetta en hásinin er ekki slitin. Þegar þetta gerðist vissi ég strax að ég væri að fara út af vellinum. Það er auðvitað gríðarlega erfitt að fara svona frá liðinu. Maður reynir bara að koma á bekkinn og styðja liðið, því við erum í þessu saman sem lið og þó að ég meiðist þá kemur bara nýr maður inn á. Þetta er auðvitað voðalega svekkjandi, og sérstaklega að hafa tapað leiknum. Það hefði gert þetta aðeins betra að vinna titilinn,“ sagði Sara.

Sara Björk Gunnarsdóttir fylgist með Pernille Harder sparka boltanum í …
Sara Björk Gunnarsdóttir fylgist með Pernille Harder sparka boltanum í úrslitaleiknum í Kænugarði í kvöld. AFP

Wolfsburg komst yfir snemma í framlengingu, 1:0, en Lyon vann leikinn að lokum 4:1 eftir að Alexandra Popp hafði verið rekin af velli.

„Lyon var bara betra í dag, með frábært lið, og það sást líka fannst mér að við vorum ekki í 100% standi. Þetta hefur verið langt tímabil og við eigum meira inni, sem er leiðinlegt að segja eftir úrslitaleik þar sem maður vill geta gefið allt. Við fengum svaka von þegar við skoruðum en svo kom rauða spjaldið og þær jöfnuðu strax. Lyon er bara frábært lið sem á þetta skilið. Þetta var ekki okkar dagur en það kemur nýr dagur og maður verður bara að horfa fram á við,“ sagði Sara áður en hún haltraði, studd við hækju, upp í liðsrútu næstbesta liðs Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert