Naumur þýskur sigur í Kanada

Frá leik Íslands og Þýskalands fyrir áramót.
Frá leik Íslands og Þýskalands fyrir áramót.

Þýska kvennalandsliðið í fótbolta vann nauman 3:2-sigur á Kanada í vináttuleik í Kanada í dag. Turid Knaak skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Svenja Huth skoraði eina mark fyrri hálfleiks strax á fyrstu mínútu og kom Þjóðverjum í 1:0. Christine Sinclair og Jessie Fleming snéru leiknum hins vegar við fyrir Kanada í síðari hálfleik áður en Sara Däbritz jafnaði á 70. mínútu og Knaak skoraði sigurmarkið. 

Ísland og Þýskaland eru í harðri baráttu um toppsæti 5. riðils í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Frakklandi á næsta ári.

Þýskaland er í toppsæti riðilsins með 15 stig eftir sex leiki, tveimur stigum meira en Ísland sem á leik til góða við Slóveníu annað kvöld. Ísland fær svo Þýskaland í heimsókn þann 1. september í leik sem gæti orðið hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin fer beint á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert