Rúrik framlengir við Sandhausen

Rúrik Gíslason verður áfram hjá Sandhausen.
Rúrik Gíslason verður áfram hjá Sandhausen. Ljósmynd/svs1916.de

Rúrik Gíslason framlengdi í dag samning sinn við þýska B-deildarfélagið Sandhausen til ársins 2020. Rúrik gekk í raðir Sandhausen frá Nürnberg í janúar á þessu ári og varð strax mikilvægur leikmaður hjá liðinu.

Rúrik spilaði 15 leiki eftir áramót hjá Sandhausen og skoraði í þeim þrjú mörk. Hann heillaði mjög með fjölhæfni sinni og spilaði hann m.a sem hægri bakvörður og framherji í leiknum á móti Aue þar sem hann skoraði jöfnunarmark seint í leiknum. 

„Ég hlakka til tveggja ára í viðbót hjá Sandhausen. Ég fann til mikils trausts hérna eftir áramót og það sást á frammistöðu minni. Ég vil halda áfram að þróast sem leikmaður og spila vel næstu árin," sagði Rúrik í samtali við heimasíðu félagsins. 

„Það skiptir okkur miklu máli að Rúrik verður hér í tvö ár í viðbót. Hann er mjög mikilvægur leikmaður, þó hann hafi aðeins spilað í hálft ár með okkur. Það er frábært að hann skrifaði undir samning við okkur þegar hann er á leiðinni á HM," sagði yfirmaður íþróttamála hjá Sandhausen, Otmar Schork. 

mbl.is