Framtíð Alisson að skýrast

Alisson er sterklega orðaður við Real Madrid og Liverpool þessa ...
Alisson er sterklega orðaður við Real Madrid og Liverpool þessa dagana. AFP

Alisson, markmaður ítalska knattspyrnufélagsins Roma, hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, en hann er eftisóttur af Liverpool og Real Madrid. Markmaðurinn greindi frá því í dag að ákvörðun um framtíð hans myndi liggja fyrir í vikulok. HM í Rússlandi hefst á fimmtudaginn þegar Rússar taka á móti Sádi-Arabíu í opnunarleik mótsins og vonast Alisson til þess að framtíð hans verði komin á hreint áður en flautað verður til leiks.

Hann er aðalmarkmaður brasilíska landsliðsins sem þykir til alls líklegt á heimsmeistaramótinu. „Ég á von á því að framtíð mín muni skýrast undir lok vikunnar. Vonandi verður hægt að klára allt áður en HM byrjar. Ef þetta skýrist ekki fyrir þann tíma mun ég ekki hugsa meira um þetta því ég ætla að einbeita mér að landsliðinu. Vonandi klárast þetta sem fyrst,“ sagði Alisson, sem virðist vera á förum frá Ítalíu, en hann er samningsbundinn Roma til ársins 2021.

mbl.is