Kluivert að ganga til liðs við Roma

Justin Kluivert er að ganga til liðs við Roma.
Justin Kluivert er að ganga til liðs við Roma. AFP

Justin Kluivert, sóknarmaður Ajax er nú staddur á Ítalíu en BBC greinir frá því í dag að leikmaðurinn sé á leiðinni í læknisskoðun hjá ítalska knattspyrnufélaginu Roma. Kluivert er eitt mesta efnið í Evrópuboltanum í dag en hann er uppalinn hjá Ajax í Hollandi.

Hann skoraði 10 mörk í 30 leikjum með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og þá var hann valinn í hollenska landsliðið í fyrsta sinn í mars á þessu ári. Kluivert spilaði sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Ajax 2017 en hann er einungis 19 ára gamall.

Faðir hans, Patrick Kluivert er goðsögn í hollenskum fótbolta en hann hafði ráðlagt syni sínum að spila áfram með Ajax næstu árin. Strákurinn virðist hins vegar vera búinn að taka ákvörðun um framtíð sína en hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning við Roma áður en vikan er á enda. 

mbl.is