Guðjohnsen til Real Madrid?

Daníel Guðjohnsen er orðaður við Real Madrid í spænskum fjölmiðlum …
Daníel Guðjohnsen er orðaður við Real Madrid í spænskum fjölmiðlum í dag. Ljósmynd/@Youngcules

Daníel Guðjohnsen er í dag orðaður við spænska knattspyrnufélagið Real Madrid en það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu. Daníel er í unglingaakademíu Barcelona og hefur verið þar frá því hann hóf að spila knattspyrnu en faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen spilaði með Barcelona á árunum 2006 til 2009.

Samkvæmt fréttum á Spáni er þögult samkomulag á milli Real Madrid og Barcelona um að félögin sæki ekki unga leikmenn í akademíur hvors annars en Andri Guðjohnsen, miðjusonur Eiðs hefur æft með Espanyol, undanfarin ár. Hann gæti hins vegar verið á förum til Real Madrid og því gæti Daníel fylgt í kjölfarið. Spænskir miðlar greina frá því að Eiður vilji ekki sundra fjölskyldunni og sé það ástæðan fyrir því að Daníel sé nú að semja við Real Madrid en hann er afar efnilegur knattspyrnumaður.

Sveinn Aron Guðjohnsen, elsti sonur Eiðs Smára er samningsbundinn Breiðablik og hefur hann leikið 9 leiki með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar, þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

mbl.is