Boðin streyma til taílensku fótboltastrákanna

Hér má sjá stóra mynd af strákunum í Wild Boars ...
Hér má sjá stóra mynd af strákunum í Wild Boars fótboltaliðinu. AFP

Boðin halda áfram að streyma til fótboltastrákanna í taílenska fótboltaliðinu Wild Boars eftir að þeim var bjargað út úr Tham Luang-hell­unum í Taílandi.

Manchester United hefur boðið drengjunum 12, þjálfara þeirra og öllum þeim sem unnu að björguninni að mæta á leik á Old Trafford á komandi leiktíð.

Í dag greindu forráðamenn spænsku 1. deildarinnar, La Liga, frá því að þeir hafi boðið strákunum og þjálfaranum að koma á leik í spænsku deildinni á komandi tímabili þegar þeir hafa jafnað sig.

„Þegar rétti tími kemur og allir sem eiga hlut að máli eru tilbúnir þá vil ég persónulega bjóða strákunum og þjálfara að mæta á leik í spænsku deildinni,“ sagði Javier Tebas forseti spænsku deildarinnar.

„Okkur langar til að bjóða þeim og deila með þeim gleðinni sem fótoltinn getur gefið og ég vona að þetta boð geti hjálpað eftir atburði síðustu vikna,“ sagði Tebas en einn af drengjunum tólf sem bjargað var út hellinum var klæddur í Real Madrid treyju.

Þá hafa skipuleggjendur Gothia Cup í Svíþjóð boðið strákunum að taka þátt í mótinu á næsta ári en Gothia Cup er risastórt fótboltafót fyrir yngri kynslóðina sem er haldið á hverju ári í Gautaborg þar sem fjölmörg íslensk lið hafa tekið þátt í mörg undanfarin ár.

mbl.is