Leikmaður Real í Dortmund næstu tvö árin

Achraf Hakimi spilar í Þýskalandi næstu tvö árin.
Achraf Hakimi spilar í Þýskalandi næstu tvö árin. AFP

Borussia Dormtmund og Real Madrid hafa komist að samkomulagi um að Achraf Hakimi, landsliðsmaður Marokkó, spili með Dortmund næstu tvö árin, en hann gengur í raðir þýska félagsins á láni frá Evrópumeisturunum.

Hakimi spilaði alla leiki Marokkó í riðlakeppninni á HM í Rússlandi, en hann er aðeins 19 ára gamall. Bakvörðurinn spilaði níu leiki fyrir Real Madrid á síðustu leiktíð. 

Hakimi er sjötti leikmaðurinn sem Dortmund fær til sín fyrir leiktíðina en þeir Marwin Hitz, Eric Oelschlagel, Thomas Delaney, Marius Wolf og Abdou Diallo höfðu áður samið við Dortmund. 

mbl.is