Allt of stórt tap

Frá leiknum í Vestmannaeyjum í kvöld.
Frá leiknum í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd//Óskar Pétur

„Mín fyrstu viðbrögð er að þetta er allt of stórt tap,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson leikmaður ÍBV eftir 4:0 tap gegn Sarpsborg í Evrópudeildinni.

„Það er ekki svona mikill munur á þessum liðum. Ég þekki nokkra í hinu liðinu og talaði við þá fyrir leik og voru þeir skíthræddir við okkur.“

Þessi leikur hjá Sarpsborg var þeirra fyrsti í Evrópukeppni í sögunni og því merkilegur leikur fyrir þær sakir.

„Þetta var fyrsti leikur þeirra í keppninni og þeir vissu svo sem ekkert hvað þeir voru að fara út í. Þannig við ákváðum bara að keyra á þetta og pressa á þá eins og við gerum alltaf hérna á Hásteinsvelli.“

Eyjamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og keyrðu á þá til að byrja með.

„Maður fann það að þetta var svolítið sjokk á þá og þeir fundu það að þetta yrði erfiður leikur fyrir þá.“

Yvan Erichot þurfti að fara út af meiddur hjá Eyjamönnum og riðlaði það skipulagi Eyjamanna.

„Það er erfitt þegar einn af okkar stóru og sterku varnarmönnum fer út af og þá missum við aðeins fönkið en komum til baka og fáum nokkur færi og vorum líklegri, manni fannst þetta vera á leiðinni. En því miður fáum við í staðinn auðveld mörk á okkur. Það hefði verið betra að vera 2:0 undir fyrir seinni leikinn en 4:0 er allt of mikið.“

Hverja telur þú möguleika ykkar fyrir seinni leikinn?

„Eins og ég sagði fyrir leik við peyjana, þetta er líklega ykkar stærsti leikur á ferlinum, þannig við eigum bara að fara þarna út og njóta þess og leggja allt í þetta og spila fyrir ÍBV.“

mbl.is