Svekkelsi að kasta þessu frá okkur

Shahab Zahedi sækir að markmanni Sarpsborg í kvöld.
Shahab Zahedi sækir að markmanni Sarpsborg í kvöld. Ljósmynd/Óskar Pétur

„Það er gríðarlegt svekkelsi að hafa kastað þessu svona frá okkur í lokin og fá á okkur þessi síðustu tvö mörk eins og kjánar,” sagði Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV eftir 4:0 tap á heimavelli gegn Sarpsborg í Evrópukeppninni.

„Ef við horfum á leikinn í heild þá vorum við fínir í fyrri hálfleik og sköpuðum okkur mjög góð færi og þetta kennir okkur það að við verðum að nýta okkur svona færi í svona leik. Það er ekki hægt að fara með hálfkák í færin í svona leik það bara gengur ekki.”

Eyjamenn byrjuðu í 4-4-2 og hefur það gengið upp í síðustu leikjum hjá ÍBV í deildinni en gerði það ekki núna. Myndi þú breyta einhverju í leikskipulaginu núna svona eftir á?

„Kannski hefðum við átt að vera varari um okkur í hálfleik, við sáum að við vorum orðnir þreyttir og kannski áttum við bara að núlla þetta niður en maður veit aldrei eftir á.”

Yvan Erichot meiddist í upphafi leiksins og var borinn út af með börum, þetta riðlaði varnarleik Eyjamanna.

„Hann er mjög mikilvægur í fjögurra manna vörninni hjá okkur og er einn besti varnarmaður okkar. Við unnum okkur hins vegar vel út úr þessu, Siggi 18 ára piltur kom inn á og spilaði þennan leik vel og sást það ekki mikið að við misstum Yvan út af. Það var mjög vont að missa hann út af og allra verst ef við erum að missa hann eitthvað lengur.”

Möguleikar Eyjamanna eru nánast engar eftir þennan leik. Hverju ætlar þú að breyta fyrir hann?

„Við þurfum bara að fara aðeins yfir það. Fyrst og fremst eigum við bara að fara í þennan seinni leik og njóta þess að vera spila í Evrópukeppni. Standa okkur vel í honum og vera tilbúnir í deildarleik tveimur dögum seinna."

mbl.is