Flestir leikmenn á mínum aldri fara til Kína

Cristiano Ronaldo á blaðamannafundinum í dag.
Cristiano Ronaldo á blaðamannafundinum í dag. Twitter/JuventusFC

Knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo var í dag kynntur til leiks sem nýr leikmaður Juventus á Ítalíu á blaðamannafundi félagsins.

Félagsskiptin voru staðfest í síðustu viku og er kaupverðið talið vera um 100 millj­ón­ir evra en það sam­svar­ar rúm­lega 12,5 millj­örðum ís­lenskra króna. Þá er talið að Ronaldo sjálfur fái um 30 milljónir evra í árslaun eða 3,6 milljarða í íslenskum krónum.

Ronaldo sat svo í dag loks fyrir svörum í fyrsta sinn sem leikmaður Juventus og talaði hann m.a. um Meistaradeildina og áframhaldandi metnað sinn til að vera sá besti.

„Ég er gríðarlega metnaðarfullur og vil takast á við nýjar áskoranir. Sporting, Manchester, Madríd og núna Juventus; þetta hefur verið draumur, ekki ferill. Ég hefði ekki getað ímyndað mér alla þá titla sem ég hef unnið og þessi áskorun verður jafngóð og þær fyrri,“ sagði hann fyrir troðfullu herbergi blaðamanna í Tórínó.

Cristiano Ronaldo umkringdur spenntum stuðningsmönnum Juventus er hann mætti til …
Cristiano Ronaldo umkringdur spenntum stuðningsmönnum Juventus er hann mætti til læknisskoðunar í morgun. AFP

„Meistaradeildin er keppni sem allir vilja vinna en við munum ekki bara berjast fyrir henni heldur ítölsku A-deildinni líka,“ sagði Portúgalinn sem vann Meistaradeildina síðastliðin þrjú ár með Real Madrid.

Ætlar ekki að hætta með landsliðinu

Ronaldo sagði Juventus vera eina félagið sem gerði tilboð í hann og bætti við að hann vilji sýna og sanna að hann er öðruvísi en aðrir leikmenn.

„Ég er ólíkur þeim knattspyrnumönnum sem halda að ferillinn sé búinn á mínum aldri og ég vil sýna það. Þetta er tilfinningarík stund fyrir mig því ég er ekki 23 ára heldur 33. Flestir leikmenn á mínum aldri fara til Qatar eða Kína.“

Hann ætlar því ekki að snúa baki við portúgalska landsliðinu í bráð. „Ég mun halda áfram að spila fyrir landið mitt, ég sný ekki baki við Portúgal. Þetta er bara enn eitt skrefið á mínum ferli.“

„Mér líður frábærlega og er tilbúinn að gera mitt besta. Ég hlakka til að byrja tímabilið og vinna marga titla hjá Juventus,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert