Forseti Real með Neymar á heilanum

Neymar hefur verið orðaður við Real Madrid undanfarið.
Neymar hefur verið orðaður við Real Madrid undanfarið. AFP

Florentino Perez, forseti Real Madrid á Spáni, er með knattspyrnustjörnuna Neymar á heilanum en Madrid er talið hafa mikinn áhuga á að kaupa sóknarmanninn sem leikur með PSG í Frakklandi.

Neymar er af mörgum talinn hinn fullkomni arftaki Cristiano Ronaldo sem var seldur frá Real til Juventus fyrir um 100 milljónir evra á dögunum en spænski risinn gaf stuttu síðar út yfirlýsingu þess efnis að félagið væri ekki á höttunum eftir Neymar.

Þrátt fyrir það telur Graham Hunter, sparkspekingur Sky Sports, að Perez vilji ólmur semja við brasilísku stjörnuna. „Hann er með Neymar á heilanum og var það áður en Ronaldo fór. Það er eitt af því sem fór í taugarnar á Ronaldo, hann vildi ekki sjá Neymar taka sæti sitt.“

Hunter segir þó að það muni reynast spænska félaginu afar erfitt að landa leikmanninum.

„Ég held að Neymar myndi stökkva á tækifærið til að fara til Real en slík félagsskipti yrðu of dýr fyrir félagið, hann verður hjá PSG í alla vega eitt ár í viðbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert