Özil vill ekki spila fyrir Þýskaland

Mesut Özil og Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands.
Mesut Özil og Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Mesut Özil, einn af heimsmeisturum Þjóðverja frá 2014 og leikmaður Arsenal, kveðst ekki lengur hafa áhuga á að spila fyrir hönd Þýskalands.

Özil birti ítarlega yfirlýsingu í dag þar sem hann sagði að sú meðferð sem hann hefði fengið frá þýska knattspyrnusambandi gerði að verkum að hann langaði ekki lengur til að klæðast landsliðstreyjunni. 

Þar segir hann jafnframt að hann hafi verið gerður að blóraböggli vegna slæmrar frammistöðu Þjóðverja í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Rússlandi í sumar en þar varð þýska liðið neðst í sínum riðli og komst ekki í sextán liða úrslit.

Í maí var Özil gagnrýndur heima fyrir eftir að hann var myndaður með Recep Erdogan, forseta Tyrklands, á samkomu í London. Özil er ættaður frá Tyrklandi en fæddur og uppalinn í Þýskalandi. Hann og Ilkay Gundogan mættu á samkomuna en Gundogan, sem leikur með Manchester City, er líka þýskur landsliðsmaður af tyrkneskum ættum. Özil sagði að hann hefði rætt við forsetann um fótbolta en þeir voru myndaðir saman.

Í kjölfarið birtust myndir af Erdogan með knattspyrnumönnunum í aðdraganda forsetakosninganna í Tyrklandi og ýmsir þýskir stjórnmálamenn gerðu athugasemdir við það og drógu í efa að Özil og Gundogan aðhylltust þýsk gildi. Þjóðverjar hafa gagnrýnt Erdogan og aðferðir hans í heimalandinu á undanförnum mánuðum.

Özil segir í yfirlýsingunni að ef hann hefði neitað að láta mynda sig með forseta Tyrklands hefði hann vanvirt uppruna forfeðra sinna. Jafnframt kemur fram að hann og fjölskylda hans hafi í kjölfarið fengið haturspósta, verið hótað í símtölum og mátt þola hatursfull ummæli í þeirra garð á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert