Nokkrir Íslendingar áfram í Evrópudeildinni

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley komust áfram.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley komust áfram. AFP

Þó nokkrir Íslendingar voru að leika með liðum sínum erlendis í Evrópudeild UEFA í kvöld en síðari leikirnir í 2. umferð kláruðust í kvöld.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru komnir í þriðju umferðina eftir 3:1-sigur á Aberdeen frá Skotlandi í framlengdum leik í Burnley. Liðin gerðu 1:1-jafntefli í Aberdeen og var sama staða uppi eftir venjulegan leiktíma í kvöld eftir að Chris Wood skoraði fyrir heimamenn og Lews Ferguson jafnaði fyrir gestina. Burnley fer til Tyrklands í þriðju umferðinni og mætir þar Istanbul Basaksehir.

Í framlengingunni skoraði Burnley svo í tvígang. Fyrst skoraði miðjumaðurinn Jack Cork á 101. mínútu áður en framherjinn Ashley Barnes innsiglaði sigurinn úr vítaspyrnu. Jóhann Berg spilaði allar 120 mínúturnar.

Viðar Örn Kjartansson var á sínum stað í byrjunarliði Maccabi Tel Aviv sem gerði 2:2-jafntefli í Serbíu gegn Radnicki Nis. Maccabi vann heimaleikinn með tveimur mörkum gegn engu og því einvígið 4:2-samanlagt. Viðar Örn var tekinn af velli á 83. mínútu. Maccabi Tel Aviv mætir Pyunik frá Armeníu í næstu umferð.

Sarpsborg frá Noregi, lið Orra Sigurðar Ómarssonar, komst áfram á útivallamörkum skoruðum eftir 1:0-heimasigur á St. Gallen frá Sviss. Sarpsborg tapaði 2:1-í Sviss en það kom ekki að sök. Orri var ekki með í kvöld frekar en í fyrri leiknum. Sarpsborg mætir Rijeka frá Króatíu í næstu umferð.

Þá var Böðvar Böðvarsson ónotaður varamaður hjá Jagiellonia frá Póllandi sem gerði ótrúlegt 4:4-jafntefli í Portúgal gegn Rio Ave. Það dugði þó þar sem pólska liðið vann 1:0-heimasigur í síðustu viku. Jagiellonia mætir Gent frá Belgíu í næstu umferð.

Að lokum var Haukur Heiðar Hauksson ónotaður varamaður hjá sænska liði AIK sem féll úr leik gegn Nordsjælland. Liðið tapaði 1:0-á heimavelli í kvöld, með sama mun og það tapaði fyrri leiknum í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert