Hrífst af viðhorfinu

Erik Hamrén er nýr landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Erik Hamrén er nýr landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. mbl.is/Valli

Svíinn reyndi Erik Hamrén hefur náð býsna góðum árangri á þjálfaraferli sínum í knattspyrnunni. Hamrén verður þjálfari karlalandsliðs Íslands næstu tvö árin að minnsta kosti. Frá því var greint í höfuðstöðvum KSÍ í gær. Hamrén er 61 árs og hefur umfangsmikla reynslu hvort heldur sem þjálfari félagsliða eða þjálfari landsliðs.

Hamrén var landsliðsþjálfari Svía í sjö ár og kynntist því að stjórna landsliði á stórmóti í tvívang. Hann fór með sænska liðið á EM 2012 og 2016 en hætti að EM loknu fyrir tveimur árum. Hefur hann ekki verið í þjálfarastarfi síðan en þjálfaraferill hans hófst árið 1987.

Þjálfun félagsliða og þjálfun landsliðs er sitt hvor heimurinn eins og íþróttáhugafólk þekkir. Landsliðsþjálfarar fá leikmenn til sín í skamman tíma og þjálfun þeirra fer fram hjá félagsliðunum. Vert er þó að geta þess að Hamrén hefur náð góðum árangri með félagsliðum og unnið bikara í þremur löndum. Hamrén þekkir auk þess fleiri Norðurlandaþjóðir en Svíþjóð eftir að hafa starfað bæði í Danmörku og Noregi.

KSÍ hafði samband

„Þegar ég fékk símhringingu frá KSÍ þá vissi ég ekki að Heimir (Hallgrímsson) hefði sagt skilið við starfið. Þá var ég spurður hvort ég hefði áhuga og ég sagðist strax hafa það enda er um að ræða frábært lið sem náð hefur mögnuðum úrslitum síðustu fimm eða sex árin. Að fylgja því eftir er mikil áskorun enda hafa væntingarnar aukist á síðustu árum. Að reyna að koma Íslandi á EM 2020 er mikil áskorun því fjölmennari þjóðir en Ísland hafa átt í vandræðum með að komast í þrjár lokakeppnir í röð. Mér finnst skemmtilegt að takast á við áskoranir. Fyrst ræddi ég lengi við Guðna (Bergsson formann KSÍ) og í framhaldinu kom ég hingað til lands og hitti fólkið. Þá var ég sannfærður um að ég vildi starfið og er hamingjusamur yfir því að þau vilji fá mig til starfa,“ sagði Hamrén þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Nánari umfjöllun um nýjan landsliðsþjálfara má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert