Albert Guðmundsson til AZ Alkmaar

Albert Guðmundsson skrifaði undir fjögurra ára samning við AZ Alkmaar …
Albert Guðmundsson skrifaði undir fjögurra ára samning við AZ Alkmaar í dag. Ljómsynd/@AZAlkmaar

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er genginn til liðs við AZ Alkmaar en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni núna rétt í þessu. Albert kemur til félagsins frá PSV í Hollandi en AZ borgar tvær milljónir evra fyrir leikmanninn en hann skrifar undir fjögurra ára samning við hollenska félagið.

„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað og ég get ekki beðið eftir því að komast út á knattspyrnuvöllinn. Ég ákvað að semja við AZ því félagið hefur sýnt mér áhuga í langan tíma og fylgst vel með mér. Þetta er félag sem vill spila sóknarbolta og það hafa margir Íslendingar spilað hérna í gegnum tíðina.“

„Ég ræddi við nokkra þeirra um tíma þeirra hérna og þeir höfðu ekkert nema gott að segja um þetta félag,“ sagði Albert að lokum í samtali við heimasíðu félagsins. Albert hefur spilað með PSV í Hollandi frá árinu 2015, fyrst með unglingaliði félagsins, en árið 2017 var hann tekinn upp í aðalliðshópinn. Hann hefur hins vegar fengið fá tækifæri með aðalliði félagsins og ákvað því að róa á önnur mið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert