Jóhann sendi Albert skemmtilega kveðju

Albert Guðmundsson er kominn til AZ Alkmaar í Hollandi.
Albert Guðmundsson er kominn til AZ Alkmaar í Hollandi. Ljósmynd/AZ Alkmaar

Albert Guðmundsson skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar. Albert kemur til félagsins frá PSV í Hollandi en PSV borgar tvær milljónir evra fyrir Albert.

Jóhann Berg Guðmundsson, fyrrverandi leikmaður AZ Alkmaar og núverandi leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, spilaði með hollenska liðinu á árunum 2009 til 2014 og er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins. 

Hann sendi Albert skemmtilega kveðju sem var spiluð á blaðamannafundinum í dag, þegar Albert var kynntur til leiks. „Ég vil nýta þetta tækifæri og óska þér til hamingju með að vera kominn til AZ Alkmaar. Ég veit það best sjálfur að þetta er frábært knattspyrnufélag með frábæra stuðningsmenn í frábærri borg. Ég veit að þú munt njóta þín vel þarna og að stuðningsmennirnir muni njóta þess að horfa á þig spila fótbolta.“

„Þú ert frábær leikmaður og ég er get ekki beðið eftir því að horfa aftur á leiki með AZ Alkmaar. Það er orðið langt síðan íslenskur leikmaður spilaði með liðinu síðast og ég er því mjög spenntur að fylgjast með þér,“ sagði Jóhann meðal annars en kveðjuna sem hann sendi má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is