Stuðningsmaður Real merktur Karius í Tallinn

Loris Karius er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Real Madrid ...
Loris Karius er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Real Madrid eftir frammistöðu sína í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. AFP

Real Madrid og Atlético Madrid eigast nú við í Meistarabikar Evrópu í knattspyrnu á Lilleküla-vellinum í Tallinn í Eistlandi. Í leiknum mætast ríkjandi Meistaradeildarmeistarar og sigurvegararnir úr Evrópudeild UEFA. Real Madrid vann 3:1-sigur á Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev í vor og þá vann Atlético Madrid  3:0-sigur á Marseille í Lyon í Frakklandi.

Loris Karius, markmaður Liverpool, gerði sig sekan um tvenn slæm mistök í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og stuðningsmenn Real Madrid virðast ekki vera búnir að gleyma því. Einn af þeim mætti í treyju, merktri Karius, á völlinn í Tallinn í kvöld og þakkaði þýska markmanninum fyrir að koma þeim í leikinn um Meistarabikar Evrópu.

Karius hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu en eftir urmul mistaka á undirbúningstímabilinu ákvað Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, að fjárfesta í nýjum markmanni og fékk Alisson Becker, landsliðsmarkmann Brasilíu, á Anfield fyrir metfé.

mbl.is