Real Madrid tilkynnir Inter Mílanó til FIFA

Luka Modric hefur verið sterklega orðaður við Inter Mílanó í …
Luka Modric hefur verið sterklega orðaður við Inter Mílanó í sumar. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Real Madrid hefur tilkynnt ítalska félagið Inter Mílanó til FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, en það eru enskir miðlar sem greina frá þessu. Forsaga málsins er sú að Luka Modric, miðjumaður Real Madrid, hefur verið sterklega orðaður við Inter í allt sumar.

Króatinn er sjálfur sagður vilja komast burt frá Real Madrid en Inter á að hafa sett sig í samband við leikmanninn áður en þeir höfðu samband við spænska stórliðið. Real Madrid hefur engan áhuga á því að selja Modric sem var valinn besti leikmaður heimsmeistaramótsins í Rússlandi þar sem Króatar höfnuðu í öðru sæti mótsins eftir 4:2-tap gegn Frökkum í úrslitaleik í Moskvu.

Margir liðsfélagar Modric í króatíska landsliðinu spila með Inter Mílanó en Ivan Perisic, ein af hetjum Króata á HM, hefur verið duglegur að hvetja Modric til þess að koma til Ítalíu. Modric kom til Real Madrid frá Tottenham árið 2012 en hann er orðinn 32 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert