Rekinn fyrir að láta gamminn geisa

Gus Poyet mætti brjálaður á blaðamannafund og var rekinn í ...
Gus Poyet mætti brjálaður á blaðamannafund og var rekinn í kjölfarið. AFP

Gustavo Poyet hefur verið rekinn sem þjálfari knattspyrnufélagsins Bordeaux í frönsku 1. deildinni en þetta staðfesti félagið í morgun. Poyet mætti á blaðamannafund í vikunni þar sem hann lét gamminn geisa og gagnrýndi leikmannastefnu félagsins harðlega.

Fjölmiðlafulltrúi félagsins reyndi að stoppa fundinn eftir að Poyet fór að láta forráðamenn félagsins heyra það fyrir að að selja framherjann Gaëtan Laborde til Montpellier fyrir 4,5 milljónir punda. „Það er ég sem ákvað það, hvenær við stoppum. Það er ég sem ræð,“ sagði Poyet.

„Ég mæti til vinnu og það næsta sem ég veit er að það er búið að selja Laborde. Hvernig er hægt að vinna við svona aðstæður? Félagið spurði mig ekki einu sinni um álit. Það eina sem ég bað um var að hann yrði ekki seldur fyrr en það væri búið að finna staðgengil. Ég mun setjast niður með forráðmönnum félagsins á föstudaginn en ég get ekki unnið við svona aðstæður, kannski hætti ég bara,“ sagði Poyet en hann var eins og áður sagði rekinn í morgun.

mbl.is