Dramatískur sigur í fyrsta leik Ronaldo

Ronaldo og félagar fagna í dag.
Ronaldo og félagar fagna í dag. AFP

Juventus vann dramatískan 3:2-útisigur á Chievo í fyrstu umferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta í kvöld. Cristiano Ronaldo lék í fyrsta skipti með Juventus í leiknum, en var ekki á meðal markaskorara liðsins. 

Sami Khedira kom Juventus yfir á þriðju mínútu, en Mariusz Stepinski jafnaði á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Emanuele Giaccherini kom Chievo yfir á 56. mínútu með marki úr víti og var staðan 2:1 fram að 75. mínútu er Mattia Bani skoraði sjálfsmark og jafnaði í 2:2. 

Þegar allt benti til þess að liðin myndu skipta með sér stigunum skoraði Federico Bernardeschi sigurmark Juventus á þriðju mínútu uppbótartímans. Ronaldo lék allan leikinn fyrir Juventus. 

mbl.is