Wenger heiðraður í Líberíu

Arsene Wenger kveður Arsenal í sumar eftir langa dvöl hjá …
Arsene Wenger kveður Arsenal í sumar eftir langa dvöl hjá félaginu. AFP

Fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, Arsene Wenger, er á leið til Líberíu þar sem hann mun fá virtustu verðlaun þjóðarinnar fyrir hlutverk sitt í knattspyrnuferli George Weah, forseta landsins. 

Annar þjálfari Weah, Claude Le Roy, mun einnig fá sömu verðlaun.

„Þeir verða heiðraðir af ríkisstjórn Líberíu 24. ágúst, sem er dagur fána þjóðarinnar, fyrir hlutverk sitt í knattspyrnuferli George Weah forseta,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar. 

Það var Wenger sem fékk Weah til Monaco frá Afríku árið 1988, en Wenger þjálfaði Monaco á þessum tíma. Það var Le Roy sem ráðlagði Wenger að fá Weah eftir að hafa séð hann spila í Kamerún. 

Weah átti eftir að eiga glæstan feril í Evrópu. Hann spilaði með liðum eins og PSG, AC Milan og Chelsea. Árið 1995 var hann valinn besti leikmaður heims af FIFA ásamt því að fá Gullhnöttinn eða Ballon d'Or frá France Football. Weah er eini Afríkumaðurinn til þess að vinna bæði þessi verðlaun.

George Weah í leik með AC Milan.
George Weah í leik með AC Milan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert