Mun gefa sér góðan tíma til að ná sér

Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason Eggert Jóhannesson

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður ekki leikfær með Augsburg þegar nýtt keppnistímabil fer af stað í þýsku Bundesligunni, en Augsburg heimsækir Fortuna Düsseldorf á morgun. Alfreð hefur ekki náð sér fyllilega af meiðslum í kálfa sem héldu honum frá keppni um tíma á síðasta tímabili. Þegar leikmenn Augsburg fóru að undirbúa sig af alvöru fyrir komandi tímabil var tekin sú ákvörðun að gefa Alfreð góðan tíma til að jafna sig og byggja sig upp fyrir veturinn. Morgunblaðið sló á þráðinn til Alfreðs og forvitnaðist um hvernig heilsan væri.

„Hún hefur verið betri. Ég er ekki að æfa með liðinu eins og er. Þessi meiðsli hafa eiginlega verið að plaga mig frá því í apríl. Ég vonaðist til þess að það myndi jafna sig í sumarfríinu en þegar ég byrjaði að æfa hjá Augsburg eftir fríið var ég lítið skárri. Var því ákveðið að taka mig aðeins til hliðar og reyna að vinna í þessu. Ég vonast eftir því að ég geti byrjað að æfa á ný með liðinu um miðjan september eða seinni hluta september,“ sagði Alfreð, en honum tókst að ljúka tímabilinu með Augsburg síðasta vor. Spilaði hann í framhaldinu með Íslandi á HM og skoraði gegn Argentínu auk þess að ná í víti gegn Nígeríu.

„Því miður hefur þetta verið of lengi viðvarandi. Maður píndi sig að sjálfsögðu fyrir HM og lokaleikina á tímabilinu. En ef ég ætla að komast í gegnum tímabilið sem fram undan er verð ég að vera 100% og taldi því ekki skynsamlegt að halda áfram að pína mig á þessum tímapunkti. Álagið hefur verið nokkuð mikið en nú tel ég skynsamlegt að horfa aðeins fram í tímann. Við viljum athuga hvort ég verði ekki frískur eftir meðhöndlun og endurhæfingu.“ Liggur því fyrir að hann getur ekki verið með gegn Sviss og Belgíu í fyrstu tveimur leikjunum í Þjóðadeildinni.

Auknar væntingar

Augsburg átti mjög góða spretti á síðasta tímabili og þá sérstaklega á fyrri hluta tímabilsins. Var liðið lengi vel í baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Segir Alfreð þá stöðu hafa komið vægast sagt á óvart í Þýskalandi.

„Ég held að við höfum komið öllum á óvart í fyrra. Ég held að flestallir hafi spáð okkur falli fyrir tímabilið vegna þess að við misstum nokkra lykilmenn. Inn í liðið komu yngri menn sem aðlöguðust liðinu mjög vel. Fyrri hluta tímabilsins vorum við um og við Evrópusætin, þvert á allar spár, sem var frábært. Fyrir vikið eru væntingarnar aðeins meiri til liðsins því við höldum eiginlega öllum leikmönnum okkar. Höfum auk þess bætt við tveimur til þremur leikmönnum. Aftur á móti eru sterk lið sem ætla sér stærri hluti rétt eins og við. Í fyrra kom í ljós hversu stutt er á milli þess að vera í 5.-6. sæti eða í 12.-13. sæti. Oft munar ekki nema 5-8 stigum á liðum í þessum sætum. Til að vera í efri hlutanum þurfa lið því að vera stöðug í stigasöfnun. Ef við tökum Bayern München út úr jöfnunni, og tvö til þrjú sem eltu Bayern, þá varð eftir einn stór pakki,“ útskýrði Alfreð.

Viðtalið við Alfreð Finnbogason má lesa í heild sinni í íþrótablaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert