Özil á enga möguleika á að snúa aftur

Mesut Özil.
Mesut Özil. AFP

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, staðfesti í dag að það væri enginn möguleiki á að Mesut Özil sneri aftur í landsliðið en sem kunnugt ákvað Özil að segja skilið við landsliðið í sumar vegna „kynþáttafordóma og virðingarleysis í sinn garð“ eins og hann orðaði það.

„Ég held að allt hafi verið sagt um þetta. Þegar leikmaður tilkynnir að hann sé hættur með þessum hætti þá velurðu hann ekki í hópinn átta eða níu vikum síðar,“ sagði Löw við fréttamenn í dag en Þjóðverjar eru að undirbúa sig fyrir leikinn gegn heimsmeisturum Frakka í þjóðadeild UEFA.

„Leikmenn sem eru hættir munu ekki hafa hlutverki að gegna í framtíðinni,“ sagði landsliðsþjálfarinn. „Mesut og ég höfum notið velgengni saman undanfarin ár. Ég hef nokkrum sinnum reynt að ná símasambandi við hann en án árangurs og ég mun halda áfram að reyna að ná í hann í framtíðinni,“ sagði Löw, sem hefur verk að vinna eftir hræðilega frammistöðu þýska liðsins á HM í sumar. Þjóðverjar fóru frá Rússlandi með skottið á milli lappanna en þeir enduðu í neðsta sæti í riðli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert