Þetta er rosalega spennandi

Arnór Sigurðsson á æfingu U21 árs landsliðsins á Kópavogsvellinum í …
Arnór Sigurðsson á æfingu U21 árs landsliðsins á Kópavogsvellinum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru spennandi tímar í vændum hjá Skagamanninum Arnóri Sigurðssyni en hann samdi á dögunum við rússneska knattspyrnuliðið CSKA Moskva þar sem hann verður liðsfélagi landsliðsmannsins Harðar Björgvins Magnússonar.

Arnór, sem er 19 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku í fyrra en hann gekk í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping frá ÍA á miðju tímabili í fyrra og sló þar í gegn. Arnór er í U21 árs landsliðinu sem verður í eldlínunni á Kópavogsvellinum á morgun en þá mætir það Eistum í undankeppni EM og leikur svo við Slóvaka á Alvogen-velllinum á þriðjudaginn. Ísland á fjóra leiki eftir í undankeppninni, alla á heimavelli, og er í baráttu við Slóvaka og N-Íra um annað sætið í riðlinum sem gefur sæti í umspili.

„Það eru tveir spennandi leikir fram undan hjá okkur hér heima og það er gaman að koma heim að spila. Við erum með frábært lið og við förum í þessa tvo leiki til að vinna. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að fá mörg stig út úr þessum fjórum leikjum og ég held að við séum allir klárir í þá áskorun,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is.

Arnór Sigurðsson í treyju CSKA Moskva.
Arnór Sigurðsson í treyju CSKA Moskva. Ljósmynd/Twittersíða Total Football

Eins og áður segir er Arnór orðinn leikmaður CSKA Moskva en rússneska félagið gerði fimm ára samning við Skagamanninn unga og greiddi fyrir hann fjórar milljónir evra sem jafngildir um hálfum milljarði íslenskra króna. CSKA Moskva endaði í 2. sæti í rússnesku deildinni í fyrra og tryggði sér sæti í Meistaradeildinni. Þar leikur liðið í riðli með Evrópumeisturum Real Madrid, Roma frá Ítal­íu og Vikt­oria Plzen frá Tékklandi.

„Þetta er stórt skref að taka og verður mikil áskorun mig. Ég fer til Rússlands eftir þessa tvo landsleiki og þá fæ ég betri mynd af þessu. Þetta er rosalega spennandi. CSKA Moskva er risaklúbbur, rússneska deildin er mjög sterk og svo er liðið auðvitað í Meistaradeildinni sem er mjög spennandi verkefni. Tíminn hjá Norrköping var frábær. Ég fékk traustið þar og nýtti tækifærið vel.

Ég talaði við Hörð Björgvin í aðdraganda samningsins og það verður gott að hafa hann með sér í liði og ég talaði líka við Jón Guðna Fjóluson sem fór í sumar frá Norrköping til rússneska liðsins Krasnodar,“ sagði Arnór, ein af vonarstjörnum Íslendinga, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert