Balotelli ekki valinn í hóp Ítala

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Hinn skrautlegi Mario Balotelli hefur verið settur út í kuldann hjá Roberto Mancini, landsliðsþjálfara Ítalíu, en Ítalir mæta Evrópumeisturum Portúgals í Þjóðadeild Evrópu í knattspyrnu í Lissabon í kvöld.

Balotelli hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir frammistöðuna í 1:1 jafntefli Ítala gegn Pólverjum í Þjóðadeildinni á föstudaginn en framherjinn átti vægast sagt slakan leik og var tekinn af velli eftir klukkutímaleik.

Mancini segir að Balotelli sé einfaldlega ekki í nógu góðu líkamlegu formi og hann verður utan hóps í kvöld. Balotelli hefur spilað alla fjóra leiki ítalska landsliðsins frá því Mancini tók við þjálfun þess og skoraði í 2:1 sigri á móti Sádi-Arabíu í vináttuleik.

mbl.is