Íslendingar munu sýna á sér aðra hlið

Toby Alderweireld á Laugardalsvellinum í kvöld.
Toby Alderweireld á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannsson

„Úrslitin hjá Íslendingum í leiknum á móti Svisslendingum komu mér og okkur öllum á óvart. Við höfum séð að íslenska liðið er gott og við bjuggumst ekki við að sjá þessi úrslit,“ sagði Toby Alderweireld, miðvörður Tottenham og belgíska landsliðsins í knattspyrnu, á fréttamannafundi á Laugardalsvelli í kvöld en Belgar mæta Íslendingum í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli annað kvöld.

„Ég held að leikurinn á morgun verði allt öðruvísi. Íslendingar áttu ekki góðan dag í leiknum á móti Sviss og ég held að þeir sýni á sér aðra hlið í þessum leik. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það er erfitt að vinna Íslendinga á þeirra heimavelli,“ sagði Alderweireld.

Belgar hafa frábæru liði á að skipa en þeir höfnuðu í þriðja sæti á HM í Rússlandi í sumar og eru í öðru sæti á nýjasta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Belgar hituðu upp fyrir leikinn gegn Íslendingum með því að vinna 4:0 sigur á Skotum á Hampden Park á föstudaginn.

„Við erum allir hungraðir í meira og leikirnir í Þjóðadeildinni eru gott tækifæri að sýna fram á hversu góðu liði við höfum á að skipa,“ sagði miðvörðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert