Rúm 5 ár liðin frá síðasta tapi í mótsleik í Laugardalnum

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki gegn Kósóvó á Laugardalsvellinum.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki gegn Kósóvó á Laugardalsvellinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur spilað tólf mótsleiki í röð án taps á Laugardalsvelli en Íslendingar taka á móti frábæru liði Belga í Þjóðadeild UEFA annað kvöld.

Ísland tapaði síðast mótsleik í Laugardalnum fyrir rúmum fimm árum en Íslendingar töpuðu fyrir Slóvenum 4:2 í júní 2013.

Síðan þá hefur landsliðið spilað tólf keppnisleiki á heimavelli, unnið tíu og gert tvö jafntefli. 6. september 2015 gerðu Ísland og Kasakstan markalaust jafntefli á Laugardalsvelli. Úrslitin þýddu að íslenska liðið tryggði sér sæti á EM í Frakklandi 2016. Íslenska liðið gerði svo 2:2-jafntefli við Lettland 10. október sama ár og í sömu undankeppni og eru það einu leikirnir sem Ísland hefur ekki unnið á heimavelli síðan Slóvenía kom í heimsókn.

Á meðal sigra sem liðið hefur unnið síðan er 2:0-sigur á Hollandi í undankeppni EM 2016, 2:1-sigur á Tékkum í sömu undankeppni, 1:0-sigur á Króatíu í undankeppni HM 2018 og tveir sigrar á Tyrkjum í undankeppni EM 2016 og HM 2018.

mbl.is