Spánverjar niðurlægðu Króata

Sergio Ramos í baráttu við Luka Modric í kvöld.
Sergio Ramos í baráttu við Luka Modric í kvöld. AFP

Spánverjar léku Króata, silfurliðið frá HM í sumar, grátt þegar liðin áttust við í A-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu á Spáni í kvöld.

Spánverjar, undir stjórn Luis Enrique, fögnuðu 6:0 sigri eftir að hafa verið 3:0 yfir í hálfleik.

Saul Niguez, Marco Asensio, Rodrigo, Sergio Ramos og Isco skoruðu fyrir Spánverja og þá varð Lovre Kalinic fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Þetta var stærsta tap Króata frá upphafi.

Spánverjar hafa þar með unnið báða leiki sína en þeir höfðu betur gegn Englendingum 2:1 á Wembley um síðustu helgi.

Í B-deildinni höfðu Bosníumenn betur á móti Austurríkismönnum, 1:0, þar sem Edin Dzeko skoraði sigurmarkið.

mbl.is