Þriðja Evrópukeppnin af stað 2021

Real Madrid hefur unnið Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð.
Real Madrid hefur unnið Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð. AFP

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, ætlar að bæta við þriðju Evrópukeppni félagsliða í karlaflokki árið 2021.

UEFA sér nú þegar um Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina en stefnir á að bæta við nýrri keppni. Þetta staðfesti mótastjóri UEFA, Andrea Agnelli, í dag á fundi samtaka evrópskra knattspyrnufélaga, ECA.

„Svo lengi sem samþykki fæst frá framkvæmdastjórn UEFA þá er búið að gefa grænt ljós á nýja keppni,“ sagði Agnelli, og bætti við: „Þar með yrðu knattspyrnufélög í Evrópukeppnum 96 talsins, frá og með tímabilinu 2021-22.“

Samkvæmt frétt The Independent er talið að það sé aðeins formsatriði að fá samþykki frá framkvæmdastjórn UEFA, enda muni ný keppni alveg örugglega auka enn hinar gríðarmiklu tekjur sambandsins.

Ekki kom fram í máli Agnelli hvert fyrirkomulag nýju keppninnar yrði eða hvaða lið yrðu þar gjaldgeng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert