Ein af stjörnum HM í bann vegna lyfjamáls?

Denis Cherishev fagnar marki gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni í síðustu …
Denis Cherishev fagnar marki gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni í síðustu viku. AFP

Denis Cherishev, stjörnuleikmaður Rússlands á HM í fótbolta í sumar, er til rannsóknar vegna gruns um að hann hafi notað vaxtarhormón í aðdraganda mótsins.

Málið er til rannsóknar hjá spænska lyfjaeftirlitinu en Cherishev er leikmaður Villarreal, reyndar að láni hjá Valencia á þessari leiktíð. Rannsókn var hafin í kjölfar þess að faðir leikmannsins sagði frá því í viðtali að hann hefði notað vaxtarhormón. Þegar slíkt er gert án þess að það sé samkvæmt læknisráði getur það haft í för með sér fjögurra ára keppnisbann. Pabbi Cherishevs sagði síðar að rangt hefði verið haft eftir honum í viðtalinu.

Cherishev, sem skoraði fjögur mörk fyrir Rússland á HM, segist ekkert hafa gert rangt. „Ég held að það sé best að láta lækna sjá um þetta mál. Þeir hafa gert allt rétt. Fyrir mitt leyti þá hefur allt verið uppi á borðum og ég held að það verði engin vandamál,“ sagði Cherishev við rússneska miðilinn Sport Express.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert