Flugvélin bilaði og fyrirliðinn ekki með

Nilla Fischer skallar boltann í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta vor. …
Nilla Fischer skallar boltann í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta vor. Hún er ekki með í dag. AFP

Á Akureyri í dag mætast Þór/KA og þýska stórliðið Wolfsburg í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Wolfsburg, með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs, lék til úrslita í keppninni í vor og hlaut silfurverðlaun.

Leikurinn hefst kl. 16.30 á Þórsvelli en liðin mætast svo á AOK-leikvanginum í Wolfsburg eftir tvær vikur. Á heimasíðu Wolfsburg kemur fram að ferðalagið til Íslands hafi ekki gengið sem skyldi því flugvélin sem flutti liðið hafi bilað og því hafi þurft að staldra við í Danmörku á leiðinni til Íslands. Af þessum sökum varð að hætta við blaðamannafund sem átti að vera á Akureyri í gær.

Fyrirliði Wolfsburg, hin sænska og öfluga Nilla Fischer, er ekki með í dag af persónulegum ástæðum. Alexandra Popp, sem reyndist Íslendingum erfið með þýska landsliðinu fyrir skömmu, er heldur ekki með eftir að hafa fengið rautt spjald í úrslitaleiknum síðasta vor. Noelle Maritz tekur einnig út leikbann. Þá eru Jana Burmeister og Anna Blässe meiddar, og Babett Peter nýbúin að jafna sig af meiðslum og því ekki með. Sara og aðrar í leikmannahópnum eru klárar í slaginn gegn Þór/KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert