Glódís í góðri stöðu

Glódís Perla Viggósdóttir með boltann í landsleik gegn Þýskalandi á …
Glódís Perla Viggósdóttir með boltann í landsleik gegn Þýskalandi á dögunum. mbl.is/Eggert

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í sænska liðinu Rosengård eru í góðri stöðu í einvígi sínu við Riazan frá Rússlandi í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Rosengård vann í dag fyrri leik liðanna, 1:0, á útivelli þar sem sænska landsliðskonan og fyrirliðinn Caroline Seger skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Glódís Perla lék að vanda allan leikinn í vörn Rosengård.

Liðin mætast að nýju í Malmö eftir tvær vikur.

Í dag og á morgun eru fyrri leikir leiknir í einvígunum í 32ja liða úrslitunum og urðu óvænt úrslit í dag þegar Kazygurt frá Kasakstan vann 3:1-sigur á Spánarmeisturum Barcelona. Börsungar eiga þó heimaleikinn til góða í einvíginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert