Richarlison nýtti fyrsta tækifærið

Richarlison og Douglas Costa fagna á FedEx Field, heimavelli Washington …
Richarlison og Douglas Costa fagna á FedEx Field, heimavelli Washington Redskins ruðningsliðsins. AFP

Sóknarmaðurinn Richarlison, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, nýtti tækifærið sitt vel í fyrsta leik sínum í byrjunarliði brasilíska landsliðsins í nótt.

Brasilía vann þá 5:0-sigur á El Salvador í vináttulandsleik og skoraði Richarlison tvö markanna. Þetta var annar landsleikur Richarlisons en hann kom inn á sem varamaður í 2:0-sigri á Bandaríkjunum á laugardaginn. Hann hefur skorað þrjú mörk fyrir Everton í haust eftir að hafa verið keyptur fyrir 50 milljónir punda.

Richarlison fiskaði einnig víti í gær sem Neymar skoraði fyrsta mark Brasilíu úr. Philippe Coutinho og Marquinhos skoruðu einnig í leiknum.

Argentína var án Lionel Messi þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Kólumbíu í New Jersey. Liðin eru bæði aðeins með bráðabirgðaþjálfara en Argentína hefur ekki fundið arftaka Jorge Sampaoli og Jose Pekerman er hættur með kólumbíska liðið.

Bandaríkin unnu 1:0-sigur á Mexíkó í Nashville með sigurmarki hins 19 ára gamla Tyler Adam í seinni hálfleik, fjórum mínútum eftir að Mexíkó missti Angel Zaldivar af velli með rautt spjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert