Þurfa ekki að hafa áhyggjur

Cristiano Ronaldo á enn eftir að skora fyrir Juventus.
Cristiano Ronaldo á enn eftir að skora fyrir Juventus. AFP

Stuðningsmenn Juventus bíða enn eftir fyrsta marki Cristiano Ronaldos en Portúgalanum hefur ekki tekist að finna netmöskvana í fyrstu þremur leikjum Ítalíumeistaranna í ítölsku A-deildinni á tímabilinu.

Ronaldo gekk í raðir Juventus frá Evrópumeisturum Real Madrid í sumar fyrir metfé en Juventus greiddi hvorki meira né minna en rúmar 15 milljarða króna fyrir kappann. Ronaldo samdi til fjögurra ára sem tryggir honum um 16 milljarða króna.

Luca Toni, fyrrverandi landsliðsmaður Ítalíu, segir ástæðulaust fyrir stuðningsmenn Juventus að hafa áhyggjur af markaleysi Ronaldos.

„Ég myndi ekki hafa áhyggjur eftir þrjá leiki. Hann þarf bara á smáheppni að halda. Ronaldo á eftir að skora mörg mörk en það er erfitt að skora 40 mörk í ítölsku deildinni,“ segir Toni.

Markaleysið hjá Ronaldo hefur þó ekki komið í veg fyrir að Juventus hefur unnið alla þrjá leiki sína. Ronaldo og félagar taka á móti Sassuolo á sunnudaginn og hver veit nema  Ronaldo opni þá markareikning sinn með meisturunum.

mbl.is