„Við hlógum allir að þessu“

Romelu Lukaku í baráttu við Guðlaug Victor Pálsson á Laugardalsvelli …
Romelu Lukaku í baráttu við Guðlaug Victor Pálsson á Laugardalsvelli í fyrrakvöld. AFP

Liðsfélagar Romelu Lukaku í belgíska landsliðinu í knattspyrnu eiga bágt með að trúa því að framherjinn stóri og stæðilegi hætti að leika með landsliðinu eftir tvö ár.

Lukaku hefur ýjað að því að hann hafi í huga að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir tvö ár en þá verður hann aðeins 27 ára gamall.

„Eftir Evrópumótið 2020 þá held ég að ég hætti,“ lét Lukaku hafa eftir sér í belgískum fjölmiðlum en hann fór mikinn með Belgum í leiknum gegn Íslendingum í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvellinum í fyrrakvöld þar sem hann skoraði tvö mörk og fiskaði vítaspyrnu. Lukaku er er markahæsti leikmaður belgíska landsliðsins frá upphafi en hann hefur skorað 43 mörk í 77 leikjum.

„Ég get varla ímyndað mér að ég muni eiga í vandræðum með að fá hann til að halda áfram. Ungir leikmenn segja stundum eitthvað sem þeir sjá eftir síðar. Við hlógum allir að þessu,“ sagði Vicent Kompany, fyrirliði belgíska landsliðsins, í samtali við breska blaðið Metro.

„Þegar Romme hættir þá mun ég sækja hann á heimili hans í Manchester og fara með hann til Brüssel. Hann býr ekki langt frá mér,“ sagði Kompany.

„Trúi ég honum? Eiginlega ekki en þú veist aldrei. Sóknarmaður eins og Lukaku leggur hart að sér og fær lítið frí. En ef við vinnum Evrópumótið þá get ég ekki ímyndað mér að hann vilji hætta. Það yrði mjög óheppilegt,“ sagði Thibaut Courtois, markvörður belgíska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert