Alfreð farinn að æfa með bolta

Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta HM-markið í sögu Íslands.
Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta HM-markið í sögu Íslands. mbl.is/Eggert

Alfreð Finnbogason er á réttri leið með að jafna sig af meiðslum í kálfa og er byrjaður að gera æfingar með fótbolta.

Þetta kom fram í máli Manuel Baum, þjálfara Augsburg, fyrir leik við Mainz í þýsku 1. deildinni á morgun. Alfreð hefur ekkert spilað á leiktíðinni og var ekki með íslenska landsliðinu í fyrstu leikjum þess í Þjóðadeildinni. Meiðslin hafa plagað Alfreð lengi, í raun síðan í apríl eftir því sem fram kom í viðtali við hann í Morgunblaðið fyrir skömmu.

„Hann er byrjaður að æfa úti á velli með endurhæfingarþjálfara og styrktarþjálfara og farinn að gera æfingar með bolta. En hann finnur enn fyrir svolitlum sársauka svo við verðum að sjá hvernig þetta þróast allt saman,“ sagði Baum. Vonir eru bundnar við að Alfreð fari að æfa með Augsburg-liðinu innan skamms.

„Það má vel vera að hann taki þátt í hluta af æfingum liðsins í september, jafnvel fullan þátt. Ég er mjög ánægður með hvernig þetta hefur þróast,“ sagði Baum.

Íslenska landsliðið leikur næst gegn Frakklandi í vináttulandsleik í október og svo gegn Sviss á Laugardalsvelli 15. október í Þjóðadeildinni.

mbl.is