Ljótt atvik skyggði á mörk Ronaldo (myndskeið)

Cristiano Ronaldo fagnar fyrsta marki sínu fyrir Juventus í dag.
Cristiano Ronaldo fagnar fyrsta marki sínu fyrir Juventus í dag. AFP

Cristiano Ronaldo er loksins kominn á blað fyrir sína nýju vinnuveitendur í Juventus en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1-sigri gegn Sassuolo í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag. Það var hins vegar liðsfélagi hans sem stal senunni á miður skemmtilegan hátt.

Ronaldo hafði ekki skorað í fyrstu þremur umferðum deildarinnar fyrir daginn í dag og eftir markalausan fyrri hálfleik tók hann til sinna ráða. Hann skoraði fyrsta markið á 50. mínútu og bætti við öðru stundarfjórðungi seinna eftir undirbúning Emre Can. Sassuolo minnkaði muninn í uppbótartíma en Juventus vann 2:1 og er eitt liða með fullt hús stiga á toppnum eftir fjórar umferðir.

Þrátt fyrir mörkin var það liðsfélagi Ronaldo, Douglas Costa, sem mun ekki síður fanga fyrirsagnir eftir leikinn. Hann náðist á myndband hrækja upp í andstæðing sinn þegar þeim lenti saman. Costa hafði þá fengið gult spjald fyrir að skalla andstæðing og fékk svo seinna gula fyrir hrákann.

Atvikið má sjá hér að neðan.

mbl.is